verdicta.is

PensionPro

Matskerfi íslenskra lífeyrissjóða (séreignasjóðir)

Hvar er lífeyrir vel geymdur?

Sá sem hugar að ávöxtun á lífeyri þarf að hugsa um marga þætti. Ekki er nóg að keppa að því eina markmiði að ávöxtun sé góð því þá gæti verið að áhættusöm ávöxtun sé stundum há og á öðrum tímum lág sem skili litlu á endanum fyrir lífeyrisþegann. Hvernig getur íslenskur lífeyrisþegi áttað sig á því hvaða sjóðir og vörsluaðilar eru farsælir í að geyma lífeyri til lengri tíma litið? Málið er flókið og því var ákveðið að fyrirtækið Verdicta.is myndi safna saman þeirri þekkingu sem aflað hefur verið á lífeyrismálum og gæðum sjóða og vörsluaðila því Verdicta.is hefur skoðað þessa aðila í 15 ár og safnað saman gögnum um þá yfir langt tímabil.

Hvernig er hægt að átta sig á því hvort aðili sé góður valkostur fyrir lífeyrissparnað eður ei? Það er nokkuð flókið að finna nálgun á að svara þessari spurningu því meira að segja í þeim tilvikum þar sem til er mikið af gögnum um lífeyrissjóði reynist það vera sannara en flest að árangur í fortíð er engin trygging um árangur í framtíð. Stærðfræðilega er því nánast óvinnandi vegur að „reikna út“ hvaða lífeyrissjóðir eru góður valkostur svo að sérfræðingar Verdicta.is nálguðust verkefnið út frá öðrum leiðum en alfarið tölfræði­legum leiðum.

Fólk hefur nokkuð skýrar grunnhugmyndir um það hvað einkennir góða lífeyrissjóði. Því var ákveðið að efna til könnunar í viðtalsformi þar sem þeir sem rætt er við tölfræðilega margtækt úrtak fólks sem er að greiða inn í sjóðina. Rætt var um það hvaða eiginleikar þurfa að vera til staðar til að uppfylla þau meginatriði að lífeyrissjóður sé vænlegur valkostur fyrir fólk á Íslandi til að geyma og ávaxta innborganir til lengri tíma. Könnun var gerð árið 2014 og svo aftur 2016 og sýndi mjög keimlíkar niðurstöður sem bendir til þess að skoðanir fólks á Íslandi séu nokkuð stöðugar varðandi hvað það sé sem einkenni góða valkosti á lífeyrismarkaði.

Aðferðafræðin

Aðferðafræðin sem Verdicta.is notaði var að greina út frá þessum tveimur könnunum þau atriði sem skipta fólk mestu máli hvernig lífeyrissjóðir starfa. Ávöxtun skiptir auðvitað miklu máli en einnig skiptir gagnsæi mjög miklu máli og svo það að sjóður sýni ekki miklar sveiflur. Að sjóður hafi starfað lengi er einnig jákvætt og þar með að leiðirnar sem valdar eru hafi verið til í ákveðinn tíma. Að sjóður eða vörsluaðili birti á skýran og aðgengilegan hátt allar ávöxtunartölur frá upphafi og birti raunávöxtun en ekki nafnávöxtun og birti alls ekki ávöxtun án þess að tilgreina hvort sé um að ræða raun- eða nafnávöxtun. Að þessar tölur séu aðgengilegar í töflu sem hægt er að finna á öllum tímum á vef viðkomandi aðila og að fyrir hverja leið sé einnig birt meðalraunávöxtun yfir öll ár sem leiðin hefur starfað. Allt þetta og margt annað kom í ljós að skipti íslenska greiðendur miklu málið. PensionPro kerfið er til að skoða starfsemi lífeyrissjóða og birta upplýsingar um það hvernig þeir standa sig gagnvart þeim atriðum sem skipta máli.

PensionPro er samanburðarkerfi lífeyrissparnaðar og skiptist í sérstakt kerfi fyrir séreignasparnað og svo sameignarspanarð (skyldulífeyrir). Inni í PensionPro kerfinu er matskerfi sem metur það hvernig mismunandi sjóðir og vörsluaðilar eru að standa sig á fjölmörgum þáttum. Niðurstaða matskerfisins birtist svo sem listi yfir bæði þá sjóði og vörsluaðila sem standa sig vel í heild en einnig eru einstaka ávöxtunarleiðir verðlaunaðar ef einkunnagjöf gefur tilefni til þess.

Sjá nánar upplýsingar hér neðar um hvaða atriði það voru sem höfðu áhrif á það hvernig lífeyrissjóðum var raðað upp í PensionPro einkunakerfinu. Um einstaka röð og niðurstöðu má alltaf deila en hins vegar má fullyrða að þeir lífeyrissjóðir sem enda ofarlega í röð PensionPro kerfisins eru sannarlega áhugaverðir valkostir fyrir íslenska greiðendur lífeyris og hafa allir staðið sig afburða vel í að gæta lífeyris fyrir greiðendur. Markmið PensionPro kerfisins er jú að vera leiðbeinandi fyrir almenning og að vera óháð stigakerfi sem bendi á hvaða aðilar eru að standa sig vel á markaði og hverjir síður.

Til þessa þá hefur gagnsæi í framistöðu íslenskra lífeyrissjóða ekki alltaf verið nægjanlegt og erfitt hefur verið fyrir Íslendinga að átta sig á því hvaða aðilar eru að standa sig vel til lengri tíma litið. PensionPro kerfið er til að bæta úr þessu og opna umræðuna um það hverjir eru að standa sig vel á markaði. Til þessa þá hafa skilaboð reglulega borist frá sjóðunum og vörsluaðilunum sjálfum þar sem fundnar eru staðreyndir sem benda oft til mikils ágætis. Dæmi er um séreignarsjóð sem hefur auglýst mikið hin síðari ár og er með tugi þúsunda Íslendinga í viðskiptum. Viðkomandi sjóður hefur talað almennum orðum um traust og vandaða starfsemi en á sama tíma þá hefur viðkomandi sjóður sýnt mjög lága meðalraunávöxtun og verið þannig slakur valkostur fyrir Íslendinga m.v. aðra valkosti sem eru á markaði. Þetta er einnig eitt af markmiðum PensionPro kerfisins, að vera aðhald gagnvart því þegar misvísandi upplýsingar eru birtar á markaði um árangur aðila á lífeyrismarkaði.

Útskýring á heildareinkunn í Pension-Pro matskerfinu

Heildareinkunn í matskerfinu er á bilinu 1-10. Stór hluti einkunarinnar er ávöxtun m.v. framistöðu annarra en aðrir þættir vega einnig þungt í heildarmati.

Fyrst ber að taka það fram að margir sjóðir og vörsluaðilar fá einkunnir á bilinu 3-5. Ekki er hægt að túlka það sem neina falleinkunn, líkt og gert er með einkunnir nemenda. Einkunnin 3 eða 4 þýðir ekki fall heldur fyrst og fremst að það sé töluvert svigrúm til staðar til að gera betur.  Einnig er rétt að það komi fram að einkunn einstakra aðila er hægt að hækka með tiltölulega auðveldum hætti um tvo – jafnvel þrjá – heila t.d. með því að auka gagnsæi í birtingu ávöxtunargagna.  Með sama hætti mætti segja að þeir tveir aðilar sem fá heildareinkunn á bilinu 6-8 gætu hæglega hækkað sínar einkunnir um rúmlega einn heilann með því að huga að tiltölulega einföldum atriðum, m.a. með því að auka gagnsæi í birtingu upplýsinga.

Nánari útskýring á einkunnum í Pension-Pro matskerfinu:

Hægt er að fá upplýsingar um forsendur talnasafnsins í PensionPro matskerfinu hér. Sérstaklega er rétt að taka það fram að PensionPro matskerfinu er ekki ætlað að vera stóri dómur um það hvaða aðilar eða sjóðir eru betri eða verri en aðrir. Megintilgangurinn með matskerfinu er að birta á aðgengilegan hátt ýmsar upplýsingar um sjóðina sem hafa ekki með góðu móti verið aðgengilegar. Einnig er birt heildarmat sérfræðinga á hverjum og einum sjóði fyrir sig og þannig hjálpað til að varpa ljósi á það sem betur má fara í tilviki hvaða aðila og ávöxtunarleiðar fyrir sig.


Um niðurstöður greiningar

Hvaða þættir skipta mestu máli varðandi þá aðila sem geyma þinn lífeyri? Hvernig eru einkunnir gefnar og hvaða niðurstöður eru birtar sérstaklega?

AÐILI VERÐLAUNAÐUR Í HEILD
Þeir aðilar sem standa sig vel í heild og fá hæstu stigagjöfina af öllum aðilum á íslenskum markaði geta átt þess kost að fá verðlaun fyrir sjóð eða vörsluaðila í heild, gefi einkunnagjöf tilefni til þess.
Hægt er að veita þessi verðlaun í tveimur flokkum: Þeim aðilum sem ávaxta alfarið í íslenskri krónu (FLOKKUR ISK) og svo þeim aðilum sem standa sig vel og ávaxta í evrum (FLOKKUR EUR).
Einkunnagjöf er birt inni í merkinu.
 
ÁVÖXTUNARLEIÐ VERÐLAUNUÐ
Þegar ávöxtunarleiðir koma vel út í einkunna­gjöf er hægt að veita einstakri ávöxtunarleið verðlaun, gefi niðurstaða tilefni til þess. Gildir þessi viðurkenning aðeins um eina ávöxtunar­leið tiltekins sjóðs eða vörsluaðila.
Hægt er að veita þessi verðlaun í tveimur flokkum: Þeim aðilum sem ávaxta alfarið í íslenskri krónu (FLOKKUR ISK) og svo þeim aðilum sem standa sig vel og ávaxta í evrum (FLOKKUR EUR).
Einkunnagjöf er birt inni í merkinu.

Ekki er ákvarðað fyrirfram hversu margir aðila fá verðlaun hverju sinni. Verðlaun eru veitt í mars ár hvert.

Atriði sem skipta almenning máli hvað starfsemi lífeyissjóða varðar

Hvaða þættir skipta mestu máli varðandi þá aðila sem geyma þinn lífeyri? Hvernig áherslur eiga vörsluaðilar sem geyma þinn lífeyri að leggja áherslu á í sinni starfsemi? Skiptir ávöxtun öllu máli eða eru fleiri þættir sem skipta máli? Skiptir öryggi og sveiflur í ávöxtun máli? Skiptir gegnsæi máli og hvernig starfshættir eru viðhafðir hjá viðkomandi aðila?

 1. Ávöxtun
  Góð ávöxtun er sá einstaki þáttur sem skiptir fólk mestu máli varðandi val á sjóð eða vörsluaðila fyrir lífeyrissparnað.
 2. Að sjóður eða vörsluaðili hafi starfað lengi
  Mikilvægt er talið að sjóður eða vörsluaðili hafi verið lengi starfandi og að stöðugleiki hafi einkennt þá starfsemi. Að mati fólks var algengast að meta það sem svo að ef sjóður eða vörsluaðili hafi starfað með núverandi ávöxtunarleiðir í 10 ár eða lengur að þá sé um að ræða stöðugleika sem sé það jákvæður að hann skipti máli í vali fólks á aðilum.
 3. Að ávöxtunarleiðirnar sem viðkomandi sjóður eða vörsluaðili býður upp á eigi sér sögu sem nái helst yfir erfiðu árin til að hægt sé að glöggva sig á því hvernig þeim er stýrt þegar á reynir.
  Að mati fólks var algengast að meta það sem svo að ef sjóður eða vörsluaðili hafi starfað yfir síðasta erfiða tímabil (2008) að þá sé um að ræða ávöxtunar­leið sem sé nógu stöðug til að hægt sé að draga jákvæðar ályktanir út frá aldri viðkomandi leiðar.
 4. Að sveiflur í erfiðu árferði (eins og 2008) séu undir meðaltali miðað við aðra sjóði eða vörsluaðila sem starfa markaði.
  Fullur skilningur er á því að sveiflur í árferði séu til staðar (en eiga að vera mildar, sjá atriði nr. 5) en það skiptir greiðendur lífeyris máli að þær sveiflur séu ekki stórar og hafi ekki afgerandi áhrif á ávöxtun. Það er því jákvætt ef sjóður nær að sýna sveiflur í erfiðu árferði sem eru minni en meðaltalssveiflur allra sjóða og vörsluaðila sem eru að ávaxta lífeyrisgreiðslur.
 5. Að sveiflur séu almennt mildar hjá ávöxtunarleiðum
  Það er metinn kostur hjá greiðendum lífeyris ef ávöxtunarleiðir hafa mildar sveiflur og fari þannig ekki upp í hæstu hæðir eða niður á dýpsta botninn. Fólk vill almennt ekki velja slíkar leiðir, jafnvel þó að það sé með einhverjum hætti á kostnað ávöxtunnar.
 6. Gengsæi – auðvellt að finna gögn á neti
  Það er jákvætt ef ávöxtunargögn eru birt sérstaklega á vefum sjóðanna en ekki aðeins birt í árskýrslum, jafnvel þótt þær séu á netinu því fólki finnst flóknara að lesa ársskýrslur heldur en að sjá skýrt afmarkað töflu sem er sett fram á aðgengilegan hátt.
 7. Gegnsæi – öll sagan birt, ár frá ári
  Það er jákvætt ef öll ávöxtunarsagan frá upphafi hverrar leiðar er birt, ár frá ári.
 8. Gegnsæi – raunávöxtun birt („by default“)
  Það er jákvætt ef öll ávöxtun er alltaf birt sem raunávöxtun. Einkum er þetta mikilvægt í íslensku umhverfi, þar sem vextir eru háir og nafnávöxtun segir fólki segir fólki ekki mikið um hina raunverulegu ávöxtun. Það er talið sérstaklega neikvætt ef sjóðir birta ávöxtun og geta þess ekki með skýrum hætti hvort um sé að ræða nafn- eða raunávöxtun.
 9. Meðalraunávöxtun sé birt yfir öll tímabil frá upphafi, fyrir allar ávöxtunarleiðir
  Það er talið jákvætt ef meðalraunávöxtun (rúmfræðilegt meðaltal) er birt fyrir allar ávöxtunarleiðir frá upphafi því sú tala gefur fólki skýra mynd af því hvernig hefur gengið þó að ávöxtun í fortíð sé ekki ávísun á ávöxtun til framtíðar.
 10. Að svör um netið berist hratt, skýrt og örugglega
  Þegar sjóðsfélagar leita til síns sjóðs eða vörsluaðila skiptir máli að svör séu skýr, þau berist hratt og að svarað sé skýrt og örugglega öllu því sem spurt er um. Það er sérstaklega neikvætt ef sjóðir hafa sýnt tilhneigingu til að svara ekki, leyna upplýsingum, vísa í trúnað og takmarka aðgengi sjóðsfélaga að skýrum og greinar­­­góðum upplýsingum.
 11. Jöfn fjárfestingarstefna fyrir allan aldur, án áhættutengingar á milli leiða
  Margir sjóðir bjóða upp á nokkrar leiðir sem eru aldursskiptar þ.e. viðkomandi sjóður eða vörsluaðili mælir með að skipta á milli leiða þegar ákveðnum aldri er náð og tengja þær leiðir við mismunandi áhættustig t.d. m.t.t. þess hlutfalls af erlendum hlutabréfum sem viðkomandi leið fjárfestir í með reglubundnum hætti. Þannig eru þessar leiðir oft uppsettar með þeim hætti að meiri áhætta er í þeim leiðum sem eru fyrir ungt fólk og minni áhætta er fyrir eldra fólk. Þó að margir sjóðir stilli ávöxtunarleiðum upp með þessum hætti þá finnst fólki æskilegast að sömu viðmið séu í gangi fyrir allan aldur. Að ávöxtunarleiðir séu ekki aldursskiptar með þeim hætti sem hér hefur verið lýst og að sjóður eða vörsluaðili hafi fáar leiðir – jafnvel aðeins eina leið þar sem reynt er að ná góðri en örggri ávöxtun fyrir alla. Margar aldursskiptar leiðir er því galli og dregur niður í stigakerfi PensionPro kerfisins en fáar leiðir, án aldursskiptingar, eru kostur. Einnig sýnir reynslan að ávöxtunarleiðir fyrir eldra fólk eru íhaldssamari en hinar og á Íslandi gefur reynslan til kynna að slíkar leiðir gefi oft betri ávöxtun til lengri tíma litið heldur en ávöxtunarleiðir sem beint er að yngra fólki.Sem dæmi má nefna meðalraunávöxtun leiða 1-5 hjá þekktum sjóði fyrir séreignasparnað, fyrir árin 2003-2016. Þar er leið 1 sagður vera fyrir yngra fólk og svo með hækkandi aldri ætti fólk að enda í leið 5. Skipta á milli leiða innan sama sjóðs. Þessi tiltekni sjóður er með helmingi lægri meðalraunávöxtun (rúmfræðilega ávöxtun) fyrir leið 1 og 2 heldur en íhaldssömustu leiðina, leið 5, fyrir þetta 13 ára tímabil. Betra hefði líklega verið að geyma sparnað sinn í leið nr. 5 allan tímann. Þessa hegðan í ávöxtunartölum má sjá hjá mörgum sjóðum á Íslandi. Hins vegar má einnig benda á að þar sem lífeyriskerfið er þróaðra, einkum er varðar séreignarsparnað, er miklu algengara að sjóðir og vörsluaðilar bjóði aðeins upp á eina leið því ef vel er að gáð hafa allir í raun eitt og sama markmiðið, óháð aldri og það er að geyma lífeyri á öruggan hátt, án mikilla sveiflna og njóta viðunandi ávöxtunar í leiðinni.
 12. Takmarkaður áhugi á að nýta lífeyri í áhættusamar fjárfestingar
  Reynslan sýnir að áhættusaman fjárfestingar hafa oft gefið góða ávöxtun. Oft er það þó til skemmri tíma litið og því er það almenn skoðun mikils meirihluta fólks að það sé takmarkaður áhugi á að nýta lífeyri í áhættusamar fjárfestingar. Fólk er að kalla eftir ávöxtunarstefnum sem eru fremur íhaldssamar, jafnvel þó að það sé á kostnað mjög hárrar ávöxtunar. Einnig sýnir reynslan að íhaldssömu leiðirnar á Íslandi gefa mjög oft betri ávöxtun til lengri tíma litið heldur en áhættusæknar ávöxtunarleiðir. Varðandi mat á þessum þætti þá er það lagt til grundvallar að fjárfestingastefna leiða sé sett fram með skýrum og gagnsæjum hætti á vef sjóðanna og að þar fylgt sé fjárfestingastefnu sem sé ekki mjög áhættusækin.
 13. Þau tilvik þegar nýjustu tölur vantar
  Sjóðir og vörsluaðilar gera sína sjóði upp á mismunandi tímum árs. Flestir í janúar til mars en sumir síðar. Þegar heildarmat fer fram á sjóðum um það hvort jákvætt eða neikvætt viðhorf mótast gagnvart þeim þá skiptir það greiðendur ekki miklu máli hvort að tölur fyrir nýjasta árið vantar eða ekki. Þess vegna var ákveðið að birta niðurstöður á mati sjóða í mars, ár hvert. Gagnvart þeim sjóðum sem enn hafa ekki birt nýjustu tölur þá skiptir það ekki upp á heildarmat, fyrir slík tilvik eru fyrri ár notuð og ekki dregið niður fyrir þau tilvik þegar sjóðir gera upp síðar en í mars, ár hvert.
 14. Um áhrif sameininga
  Að mati fólks þá er það ekki neikvætt ef sjóðir sameinast, einkum ef það er gert til að lækka hlutfallslegan kostnað. Sameiningar sjóða er því ekki talinn vera neikvæður eða jákvæður þáttur að mati greiðenda inn í sjóði þegar sjóðir og væntingar til þeirra eru metnar.

Um hættur og mögulega bjögun við það mat sem lagt er á lífeyrissjóði með PensionPro kerfinu

Miklu máli skiptir að það mat sem PensionPro kerfið leggur á lífeyrissjóði á Íslandi dragi fram upplýsingar um hvaða sjóðir og vörsluaðilar eru að standa sig vel. Einnig er mikilvægt að matsþættir séu ákvarðaðir þannig að erfitt sé fyrir lífeyrissjóði að hafa frjálsar hendur með hvernig þeir stilla sér upp gagnvart matsþáttum.

Langflestir matsþættirnir í PensionPro kerfinu eru langtímaþættir sem erfitt er að stilla upp að geðþótta og er það ákaflega mikilvægt að matið úr PensionPro kerfinu sýni réttmætt mat á hverjum tíma. Nokkrir þættir eru þess eðlis að það er tiltölulega auðvellt að laga sig að þeim með því að laga starfshætti að kröfum fólks. Eru það einkum þættir sem tengjast gegnsæi og hvernig gögn eru birt á vefsíðum sjóða og vörsluaðila. Þó að aðilar geti lagað sig að þeim þáttum og fengið þar með hærri einkunn í PensionPro kerfinu þá ber ekki að líta á að slíkt sé neikvætt heldur er þá tilgangnum náð ef sjóðir og vörsluaðilar eru farnir að auka gegnsæi og góða starfshætti með hag almennings í huga.

Það er þó einn þáttur í PensionPro matskerfinu sem í einstaka tilfellum er hægt að stilla upp að einhverju marki samkvæmt geðþótta. Það er hvort sjóður eða ávöxtunarleiðir hafa starfað lengi og þá bara í þeim tilvikum þar sem saga sjóðs felur í sér sameiningu tveggja eða fleiri sjóða. Í þessum tilvikum geta sumir sjóðir stillt því upp þannig að þeir hafi – eða ávöxtunarleiðir þeirra – starfað í lengri eða skemmri tíma, allt eftir því hvort þeir telja það tímabil með þegar núverandi sjóður var í raun tveir eða fleiri sjóðir. Algeng er að miða líftíma ávöxtunarleiðar við upphafsdag, eftir sameiningu en þó eru nokkrir sjóðir sem birta gögn og skilgreina sig út frá lengri tímaskilgreiningu, allt frá því viðkomandi sjóður var skiptur í tvo eða fleiri sjóði. Með því að „teygja sig“ lengra aftur í tíma væri hægt að kalla fram hærri einkunn í lífaldri sjóðs og er mikilvægt að vera á varðbergi ef sjóðir breyta skilgreiningu á sínum lífaldri eftir tilkomu PensionPro kerfisins. Ef slíkt gerist verður það skoðað sérstaklega og ekki tekið tillit til slíkrar lengingar í skilgreiningu á lífaldri nema að mjög skýrar og réttmætar ástæður liggi þar að baki. Þetta ein atriði er ekki talið bjaga PensionPro matskerfið því fáir sjóðir geta haft áhrif á þennan þátt í matskerfinu og svo það líka mikilvægt að það komi fram að þetta atriði vegur ekki þungt í heildareinkunn.

Hvað metur PensionPro kerfið ekki?

PensionPro matskerfinu er ekki ætlað að leggja fjárhagslegt mat á stöðu sjóða. Til þess eru tryggingafræðilegar úttektir sem stjórnir flestra sjóða láta gera, sýnist þeim svo. Eins og áður hefur verið nefnt þá er PensionPro matskerfinu ætlað að meta þá þætti sem lífeyriseigendur horfa á og þeim finnst skipta máli varðandi val og hegðun sjóða. Sjóður getur þannig komið vel út úr t.d. séreignarhluta PensionPro matkerfisins en setið uppi með sameignarhluta sem er í veikri stöðu. Í heild er það fræðilega mögulegt að sjóður fái háa einkunn í PensionPro matskerfinu en að sjóður hafi fengið högg á sig t.d. í kjölfar bankahruns og standi rétt í meðallagi vel fjárhagslega. En í slíkum tilfellum þá fær viðkomandi sjóður háa einkunn af því hann ávaxtar eign sjóðsfélaga vel og sýnir aðra hegðan sem talin er upp í töflunni hér ofar. Enda endurspeglar þetta veruleikann sem lífeyriseigendur búa við; þeir geta notið hárrar ávöxtunnar þó að sjóðurinn þeirra sé ekki í heild fjárhagslega sterkur. Og öfugt, sjóðsfélagar geta verið í þeirri stöðu að hafa valið stóran og sterkan sjóð en njóta samt sem áður heldur slakrar ávöxtunnar. Þetta er aðgreint í PensionPro matskerfinu.. Ath. hér í þessum dæmum og vangaveltum er verið að benda á möguleg jaðartilfelli en ekki það sem kann að reynast algengt.

Tilgangur PensionPro matkerfisins er því ekki að leggja mat á fjárhagslega stöðu sjóða, enda væru það þá oft stærstu sjóðirnir sem kæmu öflugast út. Miklu frekar er PensionPro kerfinu ætlað að meta þá þætti sem þjóna lífeyrisgreiðandanum einvörðungu og er það þess vegna að litið er til ofangreindra þátta.

Um matsaðila, Verdicta.is

Verdicta.is er ráðgjafafyrirtæki sem hefur fylgst með lífeyrismarkaði á Íslandi í yfir 15 ár og safnað gögnum um framistöðu einstakra aðila á markaði. Verdicta.is er öllum óháð og er því vel í stakk búið til að meta framistöðu lífeyrissjóða með gegnsæi og upplýsinga­gildi fyrir almenning í huga.

Fyrir lífeyrissjóði

 • Lífeyrissjóðir geta fengið aðgang að PensionPro matskerfi íslenskra lífeyrissjóða
 • Lífeyrissjóðir geta fengið ráðgjöf um hvaða þætti í starfseminni þarf að laga til að bæta sína starfsemi
 • Lífeyrissjóðir geta fengið mat á sínum sjóð sent og fengið ítarlegar upplýsingar hvað vegur heildareinkunn upp og hvað dregur niður.

Nánari upplýsingar veitir:
Hallgrímur Óskarsson

Netfang: ho@verdicta.com
Sími: +354 820 6060
Vefur: www.verdicta.is