verdicta.is

Verðlaun 2017

Nú í maímánuði kom út ný útgáfa af PensionPro – matskerfi lífeyrissjóða, útgáfa ársins 2017. Innihélt matskerfið öll söguleg gögn sem hægt var að fá frá lífeyrissjóðum, vörsluaðilum og FME en Matskerfi lífeyrissjóða skoðar nokkra þætti í starfsemi sjóðanna og gefur öllum 74 ávöxtunarleiðum hins íslenska séreignamarkaðar einkunn. Vegur ávöxtun mest í heildareinkunn en einnig eru þættir eins og sveiflur, gagnsæi, framistaða á erfiðum tímum o.fl (sjá nánar hér).

Fréttaþátturinn Kastljós tók fyrir umfjöllun um niðurstöður PensionPro – Matskerfis lífeyrissjóða.

Linkur 1: https://www.youtube.com/watch?v=IWfMlrlXKSw

Linkur 2: http://ruv.is/sarpurinn/klippa/misjofn-avoxtun-sereignasjoda

Kastljósþáttur 3. maí 2017

Niðurstöður – samanteknar

Einkunnir og mat á öllum 74 séreignaleiðum liggur nú fyrir og hér fylgja helstu niðurstöður matskerfisins varðandi þá sjóði, ávöxtunarleiðir eða vörsluaðila sem skara fram úr í einkunnamati ársins í ár, 2017:

Mat á ávöxtunarleiðum, sjóðum og vörsluaðilum er unnið í nýju og óháðu matskerfi lífeyrissjóða, PensionPro. Nánari upplýsingar um það kerfi og greininguna á aðilum má fá hér.

 

Niðurstöður – ítarlegar

Ítarlegur rökstuðningur byggir að langmestu leyti á þeirri greiningu á gögnum sem unnin er í PensionPro-kerfinu. Þar eru söguleg gögn skoðuð og greind með fjölmörgum breytum og þáttum sem varpa ljósi á framistöðu einstakra sjóða. Mikilvægt er að það komi fram að þeir sjóðir sem ekki eru tilnefndir til verðlauna í ár eru alls ekki í þeirri stöðu að hægt sé að mæla með að viðskiptavinir þeirra velji sér annan aðila til að ávaxta og geyma lífeyri. Þetta er því ekki upptalning á einu sjóðunum sem eru árennilegir valkostir heldur er þetta einfaldlega upptalning á bestu ávöxtunarleiðunum á íslenska séreignarmarkaðnum þegar búið er að horfa á ávöxtun sem aðalþátt en einnig líta til fjölmargra annarra þátta sem skipta máli.

 

1) Aðalverðlaun: Séreignasjóður ársins

Lífeyrissjóðurinn Stapi býður 3 leiðir í séreign og hafa þær allar ávaxtað lífeyri mjög vel. Áræðna safnið hjá Stapa hefur ávaxtað séreignarlífeyri betur en nokkur önnur ávöxtunarleið, séu gögn skoðuð langt aftur í tímann. Og í öðru sæti yfir bestu ávöxtunarleiðir í séreign á Íslandi er önnur ávöxtunarleið Stapa, Varfærna safnið.

Lífeyrissjóðurinn Stapi hlýtur því titilinn „Séreignasjóður ársins“ fyrir árið 2017.

Rökstuðningur: Frábær ávöxtun séreignaleiða, tvær þeirra í efstu sætum yfir ávöxtun séreignaleiða séu gögn skoðuð langt aftur í tímann, litlar sveiflur, einkum yfir erfið tímabil, lög saga og ágæt upplýsingagjöf.

 

2) Einstakar ávöxtunarleiðir verðlunaðar

Nokkrar ávöxtunarleiðir þykja skara fram úr og eru verðlaunaðar sem góður velkostur fyrir greiðendur viðbótarlífeyrissparnaðar (séreignar) í landinu. Ávöxtunarleiðir eru hér með taldar upp í tilviljunarkenndri röð:

2.1) Verðbréfaleið – Lífeyrissjóður verslunarmanna

Lífeyrissjóður verslunarmanna býður tvær leiðir fyrir séreignasparnað, Innlánsleið og Verðbréfaleið. Það er síðarnefnda leiðin, Verðbréfaleið sem fær verðlaun sem góður valkostur fyrir séreignasparnað á árinu 2017.

Rökstuðningur: Verðbréfaleið hefur starfað lengi (ávöxtunarsaga nær aftur til ársins 2002) og á þeirri vegferð hafa stjórnendur ávöxtunarleiðarinnar sýnt að ávöxtun er í heild góð yfir þetta langa tímabil, eða alls 3,96% meðalraunávöxtun fyrir tímabilið 2002-2016. Sveiflur eru töluvert minni en í meðallagi og er árangur á erfiðum tímum metinn viðunandi. Þegar ávöxtun er skoðuð einvörðungu þá er Verðbréfaleið í 21. sæti af 74 leiðum en þegar heildareinkunn er gefin (sem tekur tillit til fleiri þátta en ávöxtunar) þá er Verðbréfaleið í 5. sæti allra sjóða sem er afar góður árangur. Stöðugleiki, löng saga og góð upplýsingagjöf og gagnsæi eru allt þættir þar sem Verbréfaleið fær háa einkunn. Það er því sambland af góðri ávöxtun og vandaðri og stöðugri stýringu ásamt vandaðri upplýsingagjöf sem geriri það að verkum að Verbréfaleið er metin sem góður valkostur á árinu 2017.

 

2.2) Ævilífeyrir Allianz

Þýski tryggingarisinn Allianz Lebensversicherung hefur umboðsskrifstofu á Íslandi sem starfar undir nafninu Allianz Ísland hf. Séreignalífeyrir frá íslenskum lífeyrisgreiðendum er ávaxtaður í gegnum Allianz Íslandi hf., í Þýskalandi í evrum. Á Íslandi heitir ávöxtunarleiðin Æfilífeyrir Allianz og er sú ávöxtunarleið verðlaunuð sem góður valkostur nú á árinu 2017.

Rökstuðningur: Ávöxtun Allianz gagnvart íslenskum viðskiptavinum er tvíþætt: Ávöxtunin fer fram í evrum en greiðist út í íslenskum krónum fyrir þá sem vilja fá greitt út á Íslandi. Þess vegna þarf að skoða bæði þróun ávöxtunar í evrum og svo í íslenskum krónum, þegar búið er að gengis- og verðbólguleiðrétta. Ávöxtun Allianz í evrum er mjög góð og á við bestu valkosti sem eru í boði á Íslandi. Þegar ávöxtun er skoðuð m.t.t. gengis- og verðbólguleiðréttingar er ávöxtunin síðri um þessar mundir af því gengið ISK hefur styrkst til muna hin síðari misseri. Gengið hefur á síðasta áratug breyst mikið frá því að hækka ávöxtunina í evrum yfir í það að hafa neikvæð áhrif á ávöxtunina, séu þröng tímabil skoðuð. Það getur því skipt afar miklu máli hvenær væntanlegir lífeyrisþegar taka sinn lífeyri út. Er það í uppsveiflu ISK gengis gagnvart EUR eða verður því öfugt farið?

Yfir það heila er Allianz afar traustur og góður valkostur sem leggur mikla áherslu á gagnsæja og góða upplýsingagjöf, birtir ávöxtunargögn langt aftur í tímann og fær því háa heildareinkunn í matskerfinu. Einn kostur Allianz umfram íslenska aðila á markaði er að þýska ríkið ábyrgist ákveðið lágmark hvað ávöxtun Allianz varðar og er það því sterkur valkostur umfram marga íslenska sjóði sem eiga, margir hverjir, ár inn á milli þar sem ávöxtun er neikvæð. Ávöxtun EUR hjá Allianz er í 2. sæti allra íslenskra sjóða, þegar langt tímabil er skoðað.

Þegar heildareinkunn er skoðuð gagnvart öllum þáttum er Allianz í 1. sæti allra íslenskra séreignasjóða. Allianz er einnig fremst í flokki hvað varðar skýra og gagnsæja upplýsingagjöf en þar birtir félagið allar ávöxtunartölur frá upphafi, reiknar út meðalraunávöxtun og uppfærir þau gögn reglulega þannig að viðskiptavinir eiga auðvelt með að nálgast þau gögn rafrænt.

 

2.3) Lífeyrisauki 5 – Arion banki

Ein ávöxtunarleið í vörslu Arion banka, Lífeyrisauki 5 fær verðlaun sem góður valkostur fyrir séreign á árinu 2017. Ath. að hér er einvörðungu verið að meta þessa leið, Lífeyrisauka 5 en ekki aðrar leiðir með sama nafni en öðru númeri, svo sem Lífeyrisauka 1, 2, 3 og 4.

Rökstuðningur: Lífeyrisauki 5 hefur yfir langt tímabil sýnt fram á mjög góða ávöxtun, 4,16% meðalraunávöxtun yfir tímabilið 2003-2016. Lífeyrisauki 5 er því með háa ávöxtun af leiðum í séreignasparnaði af þeim sem eru í boði hér á landi. Löng og ítarleg saga Lífeyrisauka 5 liggur fyrir og hefur ávöxtun verið stöðug og nokkuð jöfn, einnig á tímabilum þar sem sveiflur hafa gjarnan verið miklar hjá öðrum aðilum. Til viðbótar má nefna góða upplýsingagjöf og er því Lífeyrisauki 5 því klárlega einn af góðum valkostum í séreignasparnaði á árinu 2017.

 

2.4) Tvær ávöxtunarleiðir Stapa – Áræðna safnið og Varfærna safnið

Með tilvísun í heildarverðlaun til Lífeyrissjóðsins Stapa, sjá ofar í þessum lista, þá eru það tvær efstu ávöxtunarleiðir Stapa sem fá verðlaun sem góður valkostur á árinu 2017.

  

Rökstuðningur: Báðar leiðir, Áræðna safnið og Varfærna safnið, eru þær leiðir sem hafa skilað einna bestri ávöxtun séreignasjóða á Íslandi, þegar langt tímabil er skoðað aftur í tímann. Áræðna safnið hefur skoðað 8,22% meðalraunávöxtun yfir tímabilið 2002-2016 og Varfærna safnið 7,8% meðalraunávöxtun fyrir sama tímabil. Báðar tölur eru afar háar og má segja að það sé verulega sjaldgjæft að lífeyrisþegar njóti svo hárrar ávöxtunar yfir svo langt tímabil (15 ára tímabil). Varðandi aðra þætti en ávöxtun þá fá báðar leiðir háa einkunnagjöf á þeim þáttum.

 

Nánari upplýsingar um matsþætti í PensionPro – Matskerfi lífeyrissjóða má sjá hér.